Advertisement
Listaháskóli Íslands stendur fyrir evrópsku samstarfsverkefni í vetur, svokölluðu BIP námskeiði (Blended Intensive Project). Viðfangsefnið er barokkópera sem verður sett á svið í samvinnu við nokkra tónlistarháskóla á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu. Um er að ræða elstu varðveittu óperu eftir konu, La liberazione di Ruggiero dall' isola di Alcina eftir Francesca Caccini. Óperan var frumflutt í Flórens í febrúar 1625 og verða því nákvæmlega 400 ár liðin frá þeim viðburði. En sýningarnar verða kl. 15:00, 22. og 23. febrúar nk í Neskirkju í Reykjavík. Verkefninu er ætlað að auka þekkingu og hæfni nemenda með fjölbreyttum hætti á því tímabili tónlistarsögunnar þegar óperuformið var að mótast. Að þjálfa túlkun og leikni og auka skilning á forminu með áherslu á þátt kvenna í mótun þess. Það er gert með því að leiða saman alþjóðlegan hóp nemenda á mismunandi stað í námi sínu, bæði langt komna söngvara og hljóðfæraleikara sem sérhæfa sig í túlkun barokktónlistar og nemendur sem eru í almennu tónlistarnámi og hafa áhuga á að takast á við verkefni sem þetta. Verkefnið snýst þar með jafnt um miðlun á jafningjagrundvelli og leiðsögn sérfræðinga. Stór þáttur í því er einnig að styrkja tengslanet iðkenda barokkflutnings með sögulega upplýstri nálgun. En slík verkefni byggjast gjarnan á langtímasamvinnu tónlistarfólks frá ólíkum löndum og jafnvel heimshornum.
Um 50 flytjendur, helmingur söngvarar og helmingur hljóðfæraleikarar, taka þátt í óperunni, auk þess leiðbeinendur og fjölmargir aðilar úr stoðsviðum þátttökuskólanna. Þeir eru auk Listaháskólans: Sibeliusarakademian í Helsinki, Konunglegi tónlistarháskólinn í Stokkhólmi, Konunglega konservatoríið í Den Haag. Einnig koma nemendur frá tónlistarháskólum í Bergen, Þrándheimi og Basel. Meðal gestakennara verða Kristina Hammarström, Päivi Kantola, Sólveig Thoroddsen, Sergio Coto, Dan Laurin, Anna Paradiso og Ólöf Ingólfsdóttir. Sigurður Halldórsson, prófessor við tónlistardeild LHÍ stýrir verkefninu og stjórnar flutningi.
Advertisement
Event Venue & Nearby Stays
Neskirkja, Hagatorg,Reykjavík, Iceland