Advertisement
Voces Thules mætir á Tónlistarnæringu í Garðabæinn með sitt hafurtask sem samanstendur af pípum, trommum, gígjum, langspilum og lýrukössum sem hafa safnast í sarpinn á rúmum 30 starfsárum. Sönghópurinn mun draga fram í dagsljósið sjaldheyrða söngva úr fjársjóðskistu fyrri alda sem laða fram stemninguna í upphafi aðventu. Einnig bregður fyrir söngvum sem hrífa okkur aftur á miðaldir í einu vetfangi og minna á áskoranir sem tilvera forfeðranna bauð upp á, sem raunar var sjaldnast neitt val um að takast á við. Efnisskráin spannar tíu aldir og segir sögur höfðingja jafnt sem almúga. Tónlistarnæring fer fram fyrsta miðvikudag í mánuði og það er menningar- og safnanefnd sem kostar tónleikaröðina sem haldin er í samstarfi við Tónlistarskóla Garðabæjar. Listrænn stjórnandi er Ólöf Breiðfjörð.
Tónleikarnir eru 30 mínútur að lengd og aðgangur er ókeypis.
Um Voces Thules:
Sönghópurinn Voces Thules var stofnaður 1991. Hópurinn hefur skipað sér sess sem einn helsti tónlistarhópur á Íslandi á sínu sviði. Í fyrstu fékkst hópurinn við flutning á enskum og frönskum fjölradda söngvum frá 14. -16. öld, auk þess sem hann frumflutti nýja tónlist eftir íslensk tónskáld. Má þar nefna John Speight, Hjálmar H. Ragnarsson, Oliver Kentish, Jónas Tómasson og Jón Nordal. Síðar varð Voces Thules leiðandi afl í rannsóknum og flutningi á íslenskri tónlistarhefð miðalda. Viðamesta verkefni hópsins er heildarflutningur, hljóðritun og útgáfa á Þorlástíðum, einu merkasta af íslenskum tónlistarhandritum. Hópurinn flutti allt verkið á Listahátíð í Reykjavík 1998. Hljóðritanir hópsins af Þorlákstíðum voru gefnar út í apríl 2006 og hlutu Íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í sígildri og samtímatónlist. Hópurinn hefur komið fram á ótal þingum og ráðstefnum tileinkuðum fornum tónlistarhandritum. Árið 2009 kom út diskurinn Sék eld of þér þar sem draumkvæði frá aðdraganda Örlygsstaðabardaga úr Sturlungu eru flutt. Voces Thules hefur, utan þess að koma fram reglulega hér á landi, ferðast víða um heim og komið fram á alþjóðlegum tónlistarhátíðum m.a. í Bretlandi, Hollandi, Noregi, Svíþjóð, Spáni, Þýskalandi og Japan. Hópurinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs sem flytjendur ársins 2008. Voces Thules hópurinn hefur undanfarin 15 ár miðlað þekkingu sinni og reynslu á vettvangi Listaháskóla Íslands þar sem árlegt námskeið er haldið í miðaldatónlist. Um þessar mundir stendur fyrir dyrum útgáfa á Þorlákstíðum á nótum í umskrift Eggerts Pálssonar byggðri á rannsóknum og reynslu Voces Thules. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út með stuðningi Menningarsjóðs sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordal.
Advertisement
Event Venue & Nearby Stays
Tónlistarskóli Garðabæjar, Kirkjulundur 11, 210 Garðabær, Ísland, Kopavogur, Iceland