Advertisement
Rafleiðsla verður haldin að öðru sinni í vélarsal gömlu rafstöðvarinnar í Elliðaárstöð í Elliðaárdal 7. febrúar frá klukkan 18-21. Elliðaárstöð þjónar nýjum tilgangi í dag og er nú miðstöð fyrir fjölbreytta fræðslu- og menningarstarfsemi á þessum fallega stað í hjarta Reykjavíkur.Rafleiðsla er hljóðbað sem gengur út á samtal í gegnum djúpa hlustun (e. deep listening) og stillta hugleiðslu (e. tuning meditation) og er dans á milli fyrirfram samdra tónsmíða og spuna. Tónlistarfólkið sem kemur fram er Osmē (Benedikt Reynisson, Helgi Örn Pétursson og Þórður Bjarki Arnarson), R • O • R (Gyða Valtýsdóttir og Úlfur Hansson), Sóley (Sóley Stefánsdóttir) og Svartþoka (Día Andrésdóttir, Ólöf Rún Benediktsdóttir og Unnur Björk Jóhannsdóttir) ásamt nýmiðlalistamanninum Leó Stefánssyni.
Rafleiðsla er hluti af Vetrarhátíð og er aðgangur ókeypis fyrir alla.
Osmē
Osmē er þríeyki úr Reykjavík sem kennir sig við stefnu sem mætti kalla hugleiðsluþungarokk og hóf störf um mitt ár 2023. Meðlimir Osmē hafa komið víða við í íslensku tónlistar- og listalífi síðustu áratugi og hafa starfað með hljómsveitum og tónlistarmönnum á borð við Dynkur, Singapore Sling, Skátar, Deep Peak, Múldýrið, Xarg, Ben Frost og fleirum.
R • O • R
R • O • R er samstarfsverkefni Gyðu Valtýsdóttur og Úlfs Hanssonar. Þau flytja frumsamda tónlist leikna á selló og hljóðgervil, þar sem þau tvinna saman ólíka hljóðheima í sterka og áhrifaríka upplifun.
Nafnið R • O • R á rætur sínar að rekja til nóteringu efnasambandsins Ether.
Sóley
Sóley Stefánsdóttir er tónskáld og lagahöfundur. Hún útskrifaðist af tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur síðan þá gefið út fjölmargar plötur og verk sem hlotið hafa bæði verðlaun og viðurkenningar. Árið 2022 var Sóley tilnefnd til Norrænu Tónlistarverðlaunanna og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sama ár fyrir plötu sína Mother Melancholia. Árið 2020 fékk hún hvatningarverðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns. Sóley hefur komið víða að og unnið að tónlist fyrir fjögur leikhúsverk en hún hlaut Grímu tilnefningu fyrir tónlist sína úr leikverkinu Nýjustu fréttir. Einnig hefur hún unnið að tónlist fyrir kvikmyndir, dansverk, útvarp og stuttmyndir. Hún kennir tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og við Menntaskóla í tónlist.
Sóley leggur nú lokahönd á sitt nýjasta verk en í verkinu rannsakar hún ýmsar hliðar feminísmans, hið mjúka form kvenlíkamans, hávaða og einfaldleika, þögnina og flókið móðurlífið.
Svartþoka
Svartþoka er rafmögnuð og tilraunaglöð svartmálmshljómsveit sem sækir skapandi áhrif frá þjóðsögum, skrímslum og hryllingsmyndum. Hljómsveitin skeytir saman gítardróni, þeremínleik, öskrum og söng til að skapa einstakann hljóðheim sem hefur fært hljómsveitinni verðskuldaða athygli sem áhugaverðir nýliðar í íslenskri metalsenu.
Leó Stefansson
Nýmiðlalistamaðurinn Leó Stefánsson sér um ljósainnsettningu. Leó er nýmiðlalistamaður sem vinnur á mörkum lista, tækni og vísinda. Hann hefur skapað alltumlykjandi hljóð og ljósainnsetningar þar sem fókusinn er færður frá verkinu sjálfu yfir á persónubundna upplifun sýningargesta. Í verkum sínum vinnur hann m.a. með eigintíðni rýmis, heilabylgjur, skynjun, eðlisfræði og samruna ljóss og hljóðs.
Leó útskrifaðist með BA gráðu úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2011 og MFA úr myndlistardeild Emily Carr University of Art + Design 2013.
Bakhjarlar Rafleiðslu eru Tónlistarborgin Reykjavík og Orka Náttúrunnar
Advertisement
Event Venue & Nearby Stays
Elliðaárstöð, Rafstöðvarvegur 6, 110 Reykjavíkurborg, Ísland,Reykjavík, Iceland